Danska úrvalsdeildarliðið Lyngby hafði betur gegn Ulsan Hyundai frá Suður-Kóreu á Atlantic Cup-mótinu í fótbolta í Algarve í Portúgal í dag, 3:0.
Sævar Atli Magnússon skoraði fyrsta mark Lyngby á 49. mínútu og lagði síðan upp annað markið á 61. mínútu.
Sævar skoraði einnig gegn Elfsborg á þriðjudaginn var. Kolbeinn Birgir Finsson lék seinni hálfleikinn í dag en Alfreð Finnbogason var ekki í hópnum að þessu sinni.
Lyngby hefur keppni á nýjan leik í dönsku deildinni 19. febrúar með leik gegn Nordsjælland á heimavelli. Nordsjælland er á toppnum en Lyngby á botninum, 13 stigum frá öruggu sæti.