Dregið var í átta liða úrslit og undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvennaflokki í dag. Einn Íslendingaslagur verður á dagskrá í átta liða úrslitunum.
Wolfsburg og París SG drógust saman, en Sveindís Jane Jónsdóttir leikur með Wolfsburg og Berglind Björg Þorvaldsdóttir er leikmaður PSG. Berglind hefur þó lítið sem ekkert spilað með franska liðinu og því er óvíst hvort hún komi við sögu í einvíginu.
Íslendingaliðið Bayern München fær verðugt verkefni og leikur við Arsenal. Glódís Perla Viggósdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir leika með Bayern.
Í hinum tveimur einvígjum átta liða úrslitanna mætast Barcelona og Roma annars vegar og Chelsea og Lyon hins vegar. Sigurliðið úr Bayern og Arsenal mætir annaðhvort Wolfsburg eða PSG.