Sophie Gordon, kærasta knattspyrnumannsins Birkis Bjarnasonar, er flutt frá Tyrklandi og heim til Frakklands. Ástæða flutningana er jarðskjálftinn sem reið yfir Tyrkland og Sýrland og hefur valdið dauða að minnsta kosti 20.000 manns.
Fyrirsætan greinir frá ákvörðun sinni á Instagram og tekur fram að hún vilji að Birkir flytji með sér. Þau hafa búið í Adana frá árinu 2021, en borgin fór afar illa úr skjálftanum. Fann Sophie verulega fyrir honum, en Birkir var í Istanbúl með liði sínu og slapp.
„Það er kominn tími fyrir mig að fara heim til Frakklands og kveðja mitt annað heimili, Tyrkland. Það ætti enginn að upplifa það sem ég gekk í gegnum, ein. Þetta er eitt það klikkaðasta og hræðilegasta sem ég hef nokkurn tímann upplifað,“ byrjar hún í færslu sinni á samfélagsmiðlinum.
Hún dásamar síðan Tyrkland og segist í ástarsorg yfir því að þurfa að yfirgefa landið og ástina sína Birki. Óskar hún þess að Birkir geti komið með sér, því ástandið í borginni sé enn hræðilegt.
„Ég veit ekki hvenær ég sé hann aftur, eða hvort hann getur farið aftur til Adana (vonandi ekki). Við vitum ekki hvað gerist næst,“ skrifaði hún meðal annars.