Ancelotti ekki að taka við landsliði Brasilíu

Carlo Ancelotti.
Carlo Ancelotti. AFP/Khaled Desouki

Brasilíska knattspyrnusambandið vísar því á bug að hafa komist að samkomulagi við Carlo Ancelotti um að taka við brasilíska karlalandsliðinu.

Í yfirlýsingu frá sambandinu segir að þær upplýsingar séu úr lausu lofti gripnar en unnið sé að ráðningu nýs þjálfara liðsins og að upplýst verði um ráðninguna þegar þar að kemur.

Á fréttamannafundi fyrir úrslitaleik Real Madrid og Al-Hilal í heimsmeistarakeppni félagsliða sagðist Ancelotti ætla að virða samning sinn við Madrídarliðið.

„Staða mín er nokkuð ljós. Ég er með samning til 2024.“

Brasilíumenn leita að arftaka Tite, sem sagði starfi sínu lausu í desember, eftir að liðið féll úr leik í átta-liða úrslitum HM í Katar gegn Króatíu.

Luis Enrique, Pep Guardiola, Zinedine Zidane og Jose Mourinho hafa allir verið orðaðir við stöðuna auk Ancelotti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert