AC Milan hafði betur gegn Tottenham á heimavelli, 1:0, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld.
Milan byrjaði með látum, því Brahim Díaz skoraði fyrsta markið strax á sjöundu mínútu er hann skallaði boltann í netið af stuttu færi eftir að Fraiser Forster í marki Tottenham hafði í tvígang varið vel.
Tottenham gekk illa að skapa sér færi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og í raun það sem eftir lifði leiks. Ciprian Tătărușanu hafði lítið að gera í markinu hjá Milan, á meðan heimamenn virtust hafa takmarkaðan áhuga á að bæta við marki og urðu mörkin því ekki fleiri.
Þýskalandsmeistarar Bayern München eru í góðum málum í einvígi sínu gegn Frakklandsmeisturum París SG eftir 1:0-útisigur í París í kvöld.
Kingsley Coman skoraði sigurmarkið á 53. mínútu. Sigurinn var verðskuldaður og gat Parísarliðið helst þakkað Gianluigi Donnarumma í markinu að mörkin yrðu ekki fleiri.
Benjamin Pavard verður ekki með í seinni leiknum, því hann fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt í uppbótartíma, fyrir brot á Lionel Messi.