Niðurstöður sjálfstæðrar rannsóknar á því hvað fór úrskeiðis í aðdraganda úrslitaleiks Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla síðastliðið vor milli Liverpool og Real Madríd á Stade de France-leikvanginum í París voru birtar í gær.
Mikill troðningur myndaðist fyrir utan völlinn þegar stuðningsmönnum var beint inn í flöskuhálsa án þess að eiga lengi vel nokkra von um að komast inn á leikvanginn, þjófar réðust á stuðningsmenn og rændu eigum þeirra ásamt því að lögregluyfirvöld og gæslumenn gengu hart fram og beittu til að mynda táragasi gegn stuðningsmönnum.
Fullyrðingar UEFA um að seinka hafi þurft leiknum vegna þess að stuðningsmenn Liverpool væru seinir reyndust byggðar á sandi og það sama átti við um fullyrðingar sem sneru að því að fjöldi fólks fyrir utan leikvanginn væri með falsaða miða.
„Liverpool FC fagnar birtingu skýrslu um ringulreiðina sem skapaðist í kringum úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í París sem sýnir fram á að stuðningsmenn Liverpool eru með öllu saklausir á sama tíma og UEFA ber meginábyrgð á skipulagsbresti, skorti á allsherjar stjórn og eftirliti þegar kom að öryggi, slæmu skipulagi og skorti á viðbragðsáætlunum,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu frá Liverpool.
Þar sagði einnig að hin sjálfstæða nefnd sem framkvæmdi rannsóknina hafi bent á að „bráð hætta hafi verið á banvænum troðningi“ og að gjörðir stuðningsmanna Liverpool til að koma í veg fyrir troðning hafi bjargað mannslífum.
„Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að tveir lykil skipulagsbrestir hafi átt sér stað. Í fyrsta lagi reyndist „líkani“ UEFA um skipulagningu á úrslitaleiknum ábótavant þar sem enga yfirsýn eða eftirlit með öryggi fólks var að finna.
Í öðru lagi voru öryggisreglur sem er að finna í reglum Evrópuráðsins hunsaðar á kostnað harðrar öryggisgæslu sem byggðu á röngum ályktunum um að af stuðningsmönnum Liverpool stæði ógn við öryggi almennings,“ sagði sömuleiðis í yfirlýsingunni.
Í skýrslunni er að finna 21 tilmæli sérfræðinga nefndarinnar um úrbætur sem mælt er með að UEFA taki upp.
Liverpool leggur til að UEFA innleiði með öllu og opinberlega öll 21 tilmælin svo stuðningsmenn allra liða megi finna til öryggis á öllum leikjum á vegum sambandsins í framtíðinni.