Framtíð argentínska knattspyrnumannsins Lionels Messis er í mikilli óvissu þessa dagana en hann er samningsbundinn París SG í Frakklandi.
Messi, sem er 35 ára gamall, gekk til liðs við París SG frá Barcelona sumarið 2021 á frjálsri sölu.
Hann skrifaði undir tveggja ára samning í París en samningurinn rennur út að loknu yfirstandandi keppnistímabili og hefur Messi ekki viljað skrifa undir nýjan samning að því er fram kemur í frétt franska miðilsins L'Equipe.
Sóknarmaðurinn varð heimsmeistari með Argentínu í desember en hann hefur meðal annars verið orðaður við Inter Miami í bandarísku MLS-deildinni.
Þá hefur hann einnig verið orðaður við endurkomu til Barcelona þar sem hans fyrrverandi samherji Xavi er nú knattspyrnustjóri.