Barcelona og Manchester United skildu jöfn, 2:2, í stórskemmtilegum fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta í kvöld.
Gestirnir frá Manchester fengu fleiri og betri færi í fyrri hálfleik. Wout Weghorst fékk það besta á 28. mínútu er hann slapp inn fyrir vörn Barcelona en Marc-André ter Stegen varði glæsilega frá honum.
Skömmu síðar átti Casemiro skalla sem ter Stegen varði vel og nokkrum mínútum eftir það varði þýski markvörðurinn enn og aftur, í þetta sinn frá Marcus Rashford.
Hinum megin fékk Robert Lewandowski besta færi heimamanna eftir níu mínútur en David De Gea varði frá honum í frekar þröngu færi.
Þrátt fyrir fín færi gestanna var staðan markalaus í hálfleik.
Það átti heldur betur eftir að breytast í seinni hálfleik, sem var hin mesta skemmtun. Marcos Alonso kom Barcelona yfir á 50. mínútu með skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu frá Raphinha.
United svaraði strax í næstu sókn, því Marcus Rashford jafnaði á 52. mínútu með skoti úr þröngu færi, eftir sendingu frá Fred. Aðeins sjö mínútum síðar átti Rashford síðan hættulega sendingu í teiginn og boltinn fór af Jules Koundé og í netið, sjálfsmark.
Heimamenn gáfust hins vegar ekki upp og Raphinha jafnaði á 76. mínútu er hann reyndi fyrirgjöf á Lewandowski. Boltinn fór hins vegar framhjá öllum og í fjærhornið. Eftir markið var Barcelona líklegra til að skora sigurmarkið og setti Casemiro boltann m.a. í stöngina á eigin marki, en fleiri urðu mörkin ekki.