Bandaríkin og Brasilía unnu fyrstu leikina

Mallory Swanson sækir að marki Kanada en hún skoraði bæði …
Mallory Swanson sækir að marki Kanada en hún skoraði bæði mörk bandaríska liðsins. AFP/Mike Ehrmann

Bandaríkin lögðu Kanada að velli, 2:0, í fyrstu umferð SheBelieves-mótsins í knattspyrnu kvenna sem fram fór í Orlando á Flórída í nótt.

Mallory Swanson, sem hét Mallory Pugh áður en hún giftist hafnaboltaleikmanninum Dansby Swanson og tók upp eftirnafn hans í byrjun þessa árs, skoraði bæði mörk bandaríska liðsins á fyrstu 35 mínútum leiksins.

Cloé Lacasse, framherji Benfica sem er með íslenskan ríkisborgararétt, kom inn á hjá Kanada á 57. mínútu en Clarissa Larisey, fyrrverandi leikmaður Vals sem nú spilar með Häcken í Svíþjóð, var á varamannabekk kanadíska liðsins allan tímann.

Brasilía vann Japan, 1:0, í fyrsta leik mótsins sem einnig fór fram í Orlando. Debinha skoraði sigurmarkið á 72. mínútu eftir sendingu frá Mörtu. Þetta var fyrsti landsleikur Mörtu frá árinu 2021, og sá 172. í röðinni en hún missti af öllu á síðasta ári vegna meiðsla.

Debinha og Marta fagna sigurmarki Brasilíu í nótt.
Debinha og Marta fagna sigurmarki Brasilíu í nótt. AFP/Mike Ehrmann
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert