Heims- og Evrópumeistari leggur skóna á hilluna

Fernando Llorente fagnar marki í leik með Tottenham Hotspur gegn …
Fernando Llorente fagnar marki í leik með Tottenham Hotspur gegn Manchester City í Meistaradeild Evrópu árið 2019. AFP

Spænski knattspyrnumaðurinn Fernando Llorente hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, 37 ára að aldri, eftir farsælan feril.

Llorente, sem var stór og stæðilegur sóknarmaður, var síðast á mála hjá Eibar í spænsku B-deildinni en hafði verið án félags frá því síðastliðið sumar.

Hann hóf ferilinn með Athletic Bilbao og lék með liðinu allt til ársins 2013 þegar hann skipti yfir til Juventus, þar sem Llorente varð Ítalíumeistari bæði tímabil sín með liðinu.

Þaðan lá leiðin til Sevilla í eitt tímabil þar sem hann vann Evrópudeildina.

Eftir það reyndi hann fyrir sér í ensku úrvalsdeildinni þar sem Llorente skoraði 15 mörk í 33 leikjum fyrir Swansea City á sínu eina tímabili.

Tottenham Hotspur festi kaup á honum og lék Llorente afskaplega vel þegar liðið fór alla leið í úrslit Meistaradeildar Evrópu árið 2019 en laut þar í lægra haldi gegn Liverpool.

Hann fór þá til Napoli og svo Udinese á Ítalíu og lauk ferlinum sem áður segir hjá Eibar.

Llorente lék 24 landsleiki fyrir Spán og skoraði í þeim 24 mörk á árunum 2008 til 2013. Varð hann heimsmeistari með liðinu á HM 2010 og Evrópumeistari á EM 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert