Íslandsbanarnir í banastuði

Portúgalir fagna marki gegn Íslandi í umspilsleik liðanna í haust.
Portúgalir fagna marki gegn Íslandi í umspilsleik liðanna í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Portúgalska kvennalandsliðið í knattspyrnu, sem sló Ísland út í umspilinu um sæti á HM 2023, vann óvæntan stórsigur í vináttulandsleik gegn Nýja-Sjálandi í morgun.

Leikið var í Hamilton á Nýja-Sjálandi þar sem heimsmeistaramótið fer fram í sumar, sem og í Ástralíu, og Portúgal vann leikinn 5:0. Aðeins tveimur sætum munar á liðunum á heimslista FIFA þar sem Portúgal er í 22. sæti og Nýja-Sjáland í 24. sæti.

Portúgalska liðið er ekki komið á HM en það fór í aukaumspil eftir sigurinn á Íslandi og leikur einmitt hreinan úrslitaleik á Nýja-Sjálandi næsta miðvikudag, við annað hvort Kamerún eða Taíland.

Ana Capeta skoraði tvö marka Portúgals í leiknum, Jessica Silva, Dolores Silva og Tatiana Pinto eitt mark hver.

Betsy Hassett, leikmaður Stjörnunnar, sem í vetur spilar með Wellington Phoenix í heimalandi sínu, lék allan leikinn með Nýja-Sjálandi og spilaði sinn 139. landsleik en hún er fjórða leikjahæsta landsliðskona þjóðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert