Holstein Kiel vann í kvöld útisigur, 3:2, á Eintracht Braunschweig í þýsku B-deildinni í fótbolta.
Hólmbert Aron Friðjónsson var í byrjunarliði Kiel og hann kom liðinu í 2:0 á 22. mínútu. Markið var það fyrsta sem hann skorar í deildinni með liðinu. Hann fór af velli eftir klukkutíma leik.
Framherjinn hefur verið orðaður við Hammarby í Svíþjóð að undanförnu, en virðist loksins vera að finna sig hjá Kiel-liðinu.
Var hann lánaður frá því til Lillestrøm í Noregi á síðasta ári, eftir að hafa lítið fengið að spreyta sig í kjölfar þess að hann gekk í raðir félagsins frá Brescia á Ítalíu.
Holstein Kiel er í 7. sæti deildarinnar með 31 stig, sjö stigum frá Paderborn, sem er í umspilssæti um sæti í efstu deild.