Napoli heldur áfram á sinni beinu braut að ítalska meistaratitlinum í knattspyrnu en liðið náði í gærkvöld átján stiga forystu á toppi A-deildarinnar.
Napoli sótti þá Sassuolo heim og sigraði 2:0. Tvær af stjörnum tímabilsins, Georgíumaðurinn Khvicha Kvaratskhelia og Nígeríumaðurinn Victor Osimhen skoruðu mörkin í fyrri hálfleiknum.
Osimhen er langmarkahæsti leikmaður deildarinnar með 18 mörk og Kvaratskhelia er fjórði markahæstur með 10 mörk.
Napoli er komið með 62 stig úr 23 leikjum, eða af 69 mögulegum, en Inter Mílanó er með 44 stig í öðru sætinu og á leik til góða. Atalanta, Roma og AC Milan koma þar á eftir með 41 stig hvert.