Frakklandsmeistarar Parísar Saint-Germain höfðu betur gegn Lille, 4:3, í mögnuðum leik í frönsku 1. deildinni í knattspyrnu karla í dag. Lionel Messi skoraði sigurmarkið á fjórðu mínútu uppbótartíma.
Útlitið var einkar gott fyrir heimamenn í PSG eftir rúmlega stundarfjórðungs leik þegar bæði Kylian Mbappé og Neymar voru búnir að skora.
Ekki leið þó á löngu þar til Bafode Diakité minnkaði muninn fyrir Lille og var staðan 2:1 í leikhléi.
Eftir tæplega klukkutíma jafnaði Jonathan David metin fyrir Lille með marki úr vítaspyrnu.
Á 69. mínútu fullkomnaði Jonathan Bamba endurkomu Lille er hann kom liðinu yfir í fyrsta sinn í leiknum.
Enn var þó nægur tími fyrir frekari sveiflur og jafnaði Mbappé metin þremur mínútum fyrir leikslok með sínu öðru marki og þriðja marki PSG.
Argentínska snillingnum Messi hugnaðist öll stigin þrjú og tryggði heimamönnum sigur með stórkostlegu marki beint úr aukaspyrnu á fjórðu mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma.
PSG er sem fyrr á toppi frönsku deildarinnar, nú með 57 stig, átta stigum meira en Marseille í öðru sæti, sem á þó leik til góða.