Árni kominn til litháísku meistaranna

Árni Vilhjálmsson í leik með Breiðabliki sumarið 2021.
Árni Vilhjálmsson í leik með Breiðabliki sumarið 2021. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Knattspyrnumaðurinn Árni Vilhjálmsson hefur samið við Zalgiris frá Litháen um að leika með liðinu á komandi keppnistímabili þar í landi.

Árni hefur ekkert spilað frá síðasta vori þegar hann fékk sig lausan undan samningi hjá Rodez í frönsku B-deildinni. Hann lék með uppeldisfélagi sínu, Breiðabliki, árið 2021 en þar á undan með Kolos Kovalica og Chornomorets Odesa í Úkraínu, Nieciecza í Póllandi, Jönköping í Svíþjóð og Lilleström í Noregi.

Árni er 28 ára gamall sóknarmaður og skoraði 11 mörk í 21 leik fyrir Breiðablik í úrvalsdeildinni sumarið 2021. 

Keppni í A-deildinni í Litháen hefst 3. mars en þar leika tíu lið fjórfalda umferð, 36 leiki á lið, og tímabilinu lýkur í nóvember.

Zalgiris, sem er frá Vilnius, er ríkjandi meistari í Litháen og vann deildina með gríðarlegum yfirburðum á síðasta ári en liðið fékk 21 stigi meira en Kauno Zalgiris og verður því í undankeppni Meistaradeildarinnar í sumar.

Árni verður fyrsti Íslendingurinn til að spila sem atvinnumaður með knattspyrnuliði í Litháen. Þar í landi leikur hins vegar Elvar Már Friðriksson með körfuboltaliðinu Rytas, sem er einnig frá borginni Vilnius.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert