Jude Bellingham gæti orðið einn dýrasti knattspyrnumaður heims í sumar, fari svo að hann yfirgefi þýska félagið Borussia Dortmund.
Bellingham, sem er einungis 19 ára gamall, hefur verið sterklega orðaður við stærstu félög Evrópu undanfarna mánuði en þar ber hæst að nefna Liverpool og Real Madrid.
The Athletic greinir frá því að Manchester City og Manchester United hafi bæði blandað sér í baráttuna um leikmanninn og að hann muni kosta um 130 milljónir punda í sumar.
Neymar er sá dýrasti í sögunni en París SG borgaði Barcelona um 200 milljónir punda fyrir brasilíska sóknarmanninn árið 2017.
Bellingham hefur leikið með Dortmund frá árinu 2020 en alls á hann að baki 119 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 20 mörk og lagt upp önnur 24.