Dejan Lovren gaf það út í opnu bréfi í dag að hann væri hættur að leika með króatíska landsliðinu í fótbolta.
Lovren, sem leikur í dag með Lyon í Frakklandi, vann silfurverðlaun á HM í Rússlandi 2018 með króatíska liðinu og brons í Katar í desember á síðasta ári.
Hann lék alls 78 landsleiki fyrir þjóð sína og skoraði í þeim fimm mörk. Hann var um tíma í herbúðum Southampton og Liverpool á Englandi og lék 162 leiki í ensku úrvalsdeildinni.
„Það er ekki auðvelt að skrifa þessi orð og ég er að reyna að halda tárunum inni,“ skrifaði Lovren m.a. í bréfið.