Sergio Ramos er hættur að leika með spænska landsliðinu í knattspyrnu en kveðst hafa tekið þá ákvörðun þvert gegn eigin vilja.
Ramos skýrði frá því á Instagram nú síðdegis að hann hefði í morgun fengið símtal frá spænska landsliðsþjálfaranum Luis de la Fuente sem kvaðst ekki reikna með honum framar, sama hversu vel hann myndi leika með sínu félagsliði eða gengi á sínum ferli.
„Því miður er þetta endapunkturinn á ferðalagi sem ég vonaðist til að yrði lengra og ég gæti lokið með betra bragð í munni," skrifaði Ramos.
Ramos hefur ekki verið valinn í landsliðið síðan í mars 2021 þegar hann lék síðustu leiki Spánverja í undankeppni HM. Hann er 36 ára gamall og hefur tvisvar orðið Evrópumeistari og einu sinni heimsmeistari með spænska landsliðinu en þessi öflugi varnarmaður hefur spilað 180 landsleiki og skorað í þeim 23 mörk.
Hann er leikjahæstur í sögu spænska landsliðsins og í hópi landsleikjahæstu knattspyrnumanna heims. Þá er hann í níunda sæti yfir markahæstu leikmenn landsliðsins, enda þótt hann hafi ávallt leikið sem varnarmaður.
Ramos hefur leikið með París SG í hálft annað ár en þar á undan var hann í sextán ár leikmaður Real Madrid þar sem hann vann Meistaradeildina fjórum sinnum og spænska meistaratitilinn fimm sinnum.