Ángel Di María skoraði þrennu fyrir Juventus þegar liðið hafði betur gegn Nantes í 24-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í síðari leik liðanna í Frakklandi í kvöld.
Leiknum lauk með stórsigri Juventus, 3:0, en Juventus vann einvígið samanlagt 4:1 og er komið áfram í 16-liða úrslitin.
Íslendingalið Midtjylland er úr leik eftir stórt tap gegn Sporting í Danmörku, 4:0, en portúgalska liðið vann einvígið samanlagt 5:1. Markvörðurinn Elías Rafn Ólafsson sat allan tímann á varamannabekk danska liðsins.
Þá tryggði Sevilla sér einnig sæti í 16-liða úrslitunum, þrátt fyrir 0:2-tap gegn PSV í Hollandi. Fyrri leik liðanna lauk með 3:0-sigri Sevilla sem vann einvígið því 3:2 en það voru þeir Luuk de Jong og Fábio Silva sem skoruðu mörk PSV í kvöld.