United sló Barcelona úr leik

Antony fagnar sigurmarki sínu.
Antony fagnar sigurmarki sínu. AFP/Oli Scarff

Antony reyndist hetja Manchester United þegar liðið tók á móti Barcelona í síðari leik liðanna í 24-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu á Old Trafford í Manchester í kvöld.

Leikurinn fór fjörlega af stað og strax á 15. mínútu fengu Börsungar vítaspyrnu þegar Bruno Fernandes greip um Alejandro Baldé, bakvörð Barcelona, í vítateig United.

Clément Turbin, dómari leiksins, benti strax á punktinn og Robert Lewandowski kom boltanum í netið með herkjum en David de Gea í marki United var ansi nálægt því að verja spyrnuna.

Leikmenn United byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og strax á 47. mínútu jafnaði Fred metin eftir laglegt spil.

Anthony, sem var nýkominn inn á sem varamaður átti þá sendingu á Fernandes sem lagði hann fyrir Fred og brasilíski miðjumaðurinn átti hnitmiðað skot, af vítateigslínunni, sem söng í bláhorninu.

Antony kom svo United yfir með marki á 73. mínútu þegar boltinn datt fyrir hann í vítateig Barcelona en hann átti hnitmiðað skot, utarlega í teignum, beint í fjærhornið og Marc-André ter Stegen kom engum vörnum við í marki Barcelona.

Lokatölur á Old Trafford því 2:1, United í vil, en United vann einvígið samanlagt 4:3 og er komið áfram í 16-liða úrslit keppninnar á meðan Barcelona er úr leik.

Man. Utd 2:1 Barcelona opna loka
90. mín. +5 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert