Fyrirliði Frakka ætlar ekki að spila á HM

Wendie Renard fagnar marki fyrir franska landsliðið.
Wendie Renard fagnar marki fyrir franska landsliðið. AFP/Franck Fife

Wendie Renard, ein besta knattspyrnukona heims um árabil og fyrirliði franska landsliðsins, segist ekki ætla að spila með liðinu á heimsmeistaramótinu í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi í sumar.

Renard er ósátt við þjálfarann, Corinne Diacre, og stjórnunarstíl hennar og sagði í yfirlýsingu í dag að hún gæti ekki haldið áfram eins og málin hafa þróast og yrði að draga sig í hlé til að halda andlegri heilsu.

Sú stjórnun sem boðið sé upp á hjá franska landsliðinu sé ekki boðleg á hæsta stigi í fótboltanum. „Í hjarta mínu þjáist ég og ég vil ekki gera það lengur," sagði Renard sem er 32 ára gömul, leikur sem miðvörður en hefur skorað 34 mörk í 142 landsleikjum fyrir Frakkland.

Renard hefur spilað með Lyon allan sinn feril, er fyrirliði liðsins og hefur fimmtán sinnum orðið franskur meistari með því og átta sinnum unnið Meistaradeild Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert