Marcelo er kominn heim

Marcelo lék með Real Madrid í fimmtán ár.
Marcelo lék með Real Madrid í fimmtán ár. AFP/Curto de la Torre

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Marcelo, sem var ákaflega sigursæll með Real Madrid um árabil, er kominn aftur til uppeldisfélagsins síns.

Marcelo, sem er 34 ára gamall, hefur samið við Fluminense í Brasilíu sem fær hann án greiðslu frá Olympiacos í Grikklandi.

Marcelo yfirgaf Fluminense aðeins 18 ára gamall og hafði þá bara spilað 11 leiki með aðalliði félagsins. Hann lék með spænska stórveldinu í fimmtán ár, frá 2007 til 2022, spilaði 546 mótsleiki með því, vann spænska meistaratitilinn sex sinnum og Meistaradeild Evrópu fimm sinnum.

Þá lék bakvörðurinn 58 landsleiki fyrir Brasilíu á árunum 2006 til 2018 en hefur ekkert spilað með liðinu eftir að heimsmeistaramótinu í Rússlandi lauk.

Fluminense hafnaði í þriðja sæti brasilísku A-deildarinnar á síðasta tímabili og varð meistari Rio de Janeiro-fylkis. Heimavöllur liðsins er hinn frægi Maracana-leikvangur í Ríó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert