Kadidiatou Diani, leikmaður París SG og franska landsliðsins í fótbolta, hefur fetað í fótspor landsliðsfyrirliðans Wendie Renard og gefið út að hún muni ekki lengur gefa kost á sér í landsliðið á meðan Corinne Diacre er landsliðsþjálfari.
Diani er mikilvægur hlekkur í franska liðinu, en hún hefur skorað 22 mörk í 82 landsleikjum frá árinu 2014. Þá hefur hún gert 71 mark í 111 deildarleikjum með Parísarliðinu.
„Ég hef ákveðið að hætta með landsliðinu til að einbeita mér að mínu félagsliði. Ég verð áfram stuðningsmaður franska landsliðsins og ef nauðsynlegar breytingar verða gerðar, mun ég snúa aftur í landsliðstreyjuna,“ skrifaði Diani m.a. á Twitter í dag.