Ævintýralegur sigur í fyrsta leik

Guðlaugur Victor Pálsson leikur með DC United.
Guðlaugur Victor Pálsson leikur með DC United. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Victor Pálsson og samherjar hans í DC United unnu ævintýralegan sigur í fyrstu umferð bandarísku MLS-deildarinnar í knattspyrnu sem var leikin í nótt.

DC United, undir stjórn Wayne Rooney, tók á móto Toronto á heimavelli og útlit var fyrir tap því staðan var 2:1, kanadíska liðinu í hag, þegar 90 mínútur voru liðnar. En þá jafnaði belgíski framherjinn Christian Benteke, fyrrverrandi leikmaður Crystal Palace, Liverpool og Aston Villa, metin í 2:2 og á áttundu mínútu í uppbótartímanum skoraði Theodore Ku-DiPietro sigurmark DC United, 3:2.

Guðlaugur Victor lék allan leikinn með liðinu, sem miðvörður. Mateusz Klisch, fyrrverandi leikmaður Leeds, skoraði fyrsta mark liðsins með glæsilegu langskoti.

Dagur Dan Þórhallsson kom inn á sem varamaður á 78. mínútu þegar hans nýja lið, Orlando City, sigraði New York Red Bulls á Flórída, 1:0.

Þorleifur Úlfarsson kom líka inn á sem varamaður á 78. mínútu hjá Houston Dynamo en hans lið tapaði á útivelli fyrir Cincinnati, 2:1.

Róbert Orri Þorkelsson var ekki í leikmannahópi CF Montréal sem tapaði 2:0 fyrir Inter Miami á útivelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert