Messi og Mbappé stórbrotnir í fjarveru Neymars

Lionel Messi og Kylian Mbappe fagna öðru marki Frakkans.
Lionel Messi og Kylian Mbappe fagna öðru marki Frakkans. AFP/Nicolas Tucat

Stórstjörnurnar Lionel Messi og Kylian Mbappé buðu upp á sýningu í útisigri PSG á Marseille, 3:0, í toppslag frönsku 1. deildarinnar í fótbolta í kvöld. 

Enginn Neymar var í leikmannahópi PSG í kvöld en hann meiddist illa í síðasta leik liðsins gegn Lille. 

Mbappé kom frönsku meisturunum yfir á 25. mínútu leiksins eftir undirbúning frá Lionel Messi. Frakkinn endurgreiddi svo greiðann fjórum mínútum síðar er hann lagði upp mark á Messi sjálfan, 2:0. 

Er tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik innsiglaði Mbappé sigur frönsku meistaranna, og enn lagði Messi markið upp. 

Argentínski snillingurinn er nú með tólf mörk sem og tólf stoðsendingar í 20 leikjum á tímabilinu. Mbappé er með 17 mörk og þrjár stoðsendingar í einum leik meira. 

Þessi sigur er ansi þýðingarmikill fyrir Parísarliðið en það jók forskot sitt á Marseille í átta stig. PSG situr á toppnum með 60 stig en Marseille er í öðru með 52. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert