Sara og Juventus í öðru sæti fyrir tvískiptingu

Sara Björk Gunnarsdóttir í leik með Juventus í haust.
Sara Björk Gunnarsdóttir í leik með Juventus í haust. Ljósmynd/@JuventusFCWomen

Lokaumferð deildarkeppni ítölsku A-deildarinnar í fótbolta kvenna lauk í dag. Nú tekur við tvískipting ekki ósvipuð þeirri sem við þekkjum úr Bestu deildinni hér heima.

Juventus vann sigur á Parma, 2:1, í ítölsku A-deildinni í fótbolta í dag. Sara Björk Gunnarsdóttir lék allan leikinn fyrir Juventus og Margrét Árnadóttir kom inn á sem varamaður fyrir Parma á 85. mínútu.

AC Milan, lið Guðnýjar Árnadóttur, lagði Comu á útivelli, 4:0, en Guðný er fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

Juventus hafnaði í öðru sæti deildarkeppninnar með 40 stig, átta stigum á eftir Roma. Inter, lið Önnu Bjarkar Kristjánsdóttur, hafnaði í þriðja sæti, fimm stigum á eftir Juventus og AC Milan hafnaði í fjórða sæti, stigi á eftir grönnum sínum í Inter.

Parma hafnaði í áttunda sæti og mun spila um að halda sæti sínu í deildinni ásamt Sassuolo, Pomigliano, Como og Sampdoria. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert