Staða Íslendingaliðsins Lyngby versnaði enn á botni dönsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag þegar það fékk á sig mark í uppbótartíma og tapaði 1:0 fyrir Randers á útivelli.
Lyngby, undir stjórn Freys Alexanderssonar, hefur aðeins unnið einn af nítján leikjum sínum, er með 9 stig á botninum og er þrettán stigum frá því að komast úr fallsæti deildarinnar.
Alfreð Finnbogason og Sævar Atli Magnússon léku fyrstu 74 mínútur leiksins en Kolbeinn Birgir Finnsson kom þá inn á í stað Sævars.
Aron Sigurðarson lék allan leikinn með Horsens sem tapaði 0:3 fyrir Viborg á heimavelli og er í 10. sæti af 12 liðum deildarinnar með 22 stig. AaB, undir stjórn Eriks Hamréns, er næstneðst með 14 stig.