Klinsmann tekur við landsliði

Jürgen Klinsmann er orðinn landsliðsþjálfari Suður-Kóreu.
Jürgen Klinsmann er orðinn landsliðsþjálfari Suður-Kóreu. AFP/Ronny Hartmann

Þjóðverjinn Jürgen Klinsmann hefur verið ráðinn þjálfari karlalandsliðs Suður-Kóreu í knattspyrnu.

Klinsmann, sem er 58 ára gamall, tekur við af Portúgalanum Paulo Bento sem sagði starfi sínu lausu eftir að Suður-Kórea tapaði fyrir Brasilíu í sextán liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar í desember.

Knattspyrnusamband Suður-Kóreu skýrði frá því að Klinsmann hefði skrifað undir samning fram yfir heimsmeistaramótið 2026 sem fer fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó.

Klinsmann var einn besti knattspyrnumaður Þjóðverja af sinni kynslóð en hann skoraði 47 mörk í 108 landsleikjum fyrir Þýskaland á árunum 1987 til 1998. Hann lék með Stuttgart, þar sem hann var samherji Ásgeirs Sigurvinssonar í fimm ár og skoraði mörg mörk eftir sendingar frá Eyjamanninum. Síðan lék hann með Inter Mílanó, Mónakó, Tottenham, Bayern München og Sampdoria og lauk síðan ferlinum með Tottenham árið 1998.

Klinsmann þjálfaði þýska landsliðið 2004-2006, Bayern München 2008-2009, landslið Bandaríkjanna 2011-2016 og lið Herthu Berlín um tíu vikna skeið á tímabilinu 2019-2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert