Lewandowski missir af Real Madrid

Robert Lewandowski skallar að marki Almería í leiknum í gær.
Robert Lewandowski skallar að marki Almería í leiknum í gær. AFP/Jorge Guerrero

Pólski sóknarmaðurinn Robert Lewandowski meiddist í leik með Barcelona í gær þegar liðið tapaði mjög óvænt fyrir Almería í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu.

Lewandowski hefur skorað 25 mörk á sínu fyrsta tímabili með Barcelona en nú er ljóst að hann missir af stórleiknum gegn erkifjendunum í Real Madrid sem fram fer á fimmtudaginn en það er fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum spænska bikarsins.

Talið er að Lewandowski verði frá keppni í tvær vikur hið minnsta en hann gengst undir ítarlegri rannsóknir í dag. En hann ætti alltaf að ná uppgjörinu gegn Real Madrid í 1. deildinni þegar liðin mætast þann 19. mars.

Lewandowski er ekki sá eini á sjúkralistanum því bæði Ousmane Dembélé og Pedri missa líka af bikarleiknum á fimmtudaginn.

Lewandowski hefur skorað 15 af þessum 25 mörkum í spænsku 1. deildinni og þar er hann markahæstur, fjórum mörkum á undan Karim Benzema hjá Real Madrid og Joselu hjá Espanyol.

Barcelona er með sjö stiga forskot á Real Madrid á toppi deildarinnar þrátt fyrir ósigurinn óvænta í gær en með þeim úrslitum komst Almería úr fallsæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert