Georgíski varnarmaðurinn Luka Lochoshvili, leikmaður Cremonese í ítölsku A-deildinni, hlaut háttvísisverðlaun Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, á verðlaunaafhendingu sambandsins í gær.
Óhætt er að segja að Lochoshvili sé vel að verðlaununum kominn þar sem hann framdi sannkallaða hetjudáð í leik Wolfsberger gegn Austria Vín í austurrísku 1. deildinni fyrir ári síðan.
Lochoshvili lék þá með Wolfsberger.
Undir lok leiksins varð Georg Teigl, leikmaður Austria Vín, fyrir harkalegu samstuði og féll til jarðar. Lochoshvili sá um leið að ekki var allt með felldu, rauk til og kom hönd sinni fyrir í munni Teigl þar sem hann togaði tunguna úr koki Austurríkismannsins áður en hann gleypti hana.
Teigl komst fljótt aftur til meðvitundar og hlaut aðhlynningu læknateyma beggja liða í dágóða stund áður en hann var fluttur á sjúkrahús. Hefur Teigl síðan jafnað sig að fullu.
Á Instagram-aðgangi sínum þakkaði hann Lochoshvili kærlega fyrir, þar sem Georgíumaðurinn hafi að öllum líkindum bjargað lífi sínu.
Lochoshvili, sem var seldur til Cremonese síðastliðið sumar, gat ekki verið viðstaddur athöfnina í gær þar sem ítalska liðið á leik gegn Roma í ítölsku A-deildinni í kvöld.
Í myndskeiði þakkaði einkar hógvær Lochoshvili fyrir útnefninguna.
„Sem betur fer vissi ég hvað þurfti að gera og ég held að ég hafi náð í tunguna hans á ögurstundu. Þetta er risa heiður fyrir mig, ég vil þakka fyrir þessi verðlaun.
Ég er mjög ánægður með þau en er enn ánægðari með að hafa verið fær um að bjarga lífi Georgs. Mikilvægustu hlutirnir í knattspyrnu eru háttvísi og virðing,“ sagði hann.