Roma tapaði óvænt fyrir Cremonese á útivelli í ítölsku A-deildinni í fótbolta í kvöld. Sigurinn er sá fyrsti hjá Cremonese í efstu deild frá árinu 1996.
Tímabilið hefur verið erfitt hjá nýliðum Cremonese og var liðið enn án sigurs eftir 23 leiki, en það breyttist í 24. tilraun í kvöld.
Frank Tsadjout kom Cremonese yfir á 17. mínútu, en Leonardo Spinazzola jafnaði á 71. mínútu. Tólf mínútum síðar skoraði Daniel Ciofani sigurmark Cremonese úr víti.
José Mourinho, knattspyrnustjóri Roma, fékk að líta rauða spjaldið fyrir mótmæli í upphafi seinni hálfleiks.
Cremonese fór upp fyrir Sampdoria með sigrinum og er liðið nú átta stigum frá öruggu sæti. Roma er í fimmta sæti með 44 stig.