José Mourinho, knattspyrnustjóri Roma, segir farir sínar ekki sléttar eftir að hafa fengið sitt þriðja rauða spjald á yfirstandandi tímabili í 1:2-tapi fyrir Cremonese í ítölsku A-deildinni í gærkvöldi.
„Ég er tilfinningaríkur en ekki klikkaður. Í fyrsta sinn á ferli mínum ræddi dómari við mig með óréttlætanlegum hætti. Að ég skuli hafa brugðist svona við er vegna þess að eitthvað gerðist.
Núna þarf ég að fá að vita hvort ég geti gert eitthvað út frá agasjónarmiði,“ sagði Mourinho á blaðamannafundi eftir leik.
Hann sagði fjórða dómara leiksins hafa fyrirskipað dómaranum Marco Piccinini að gefa sér beint rautt spjald án þess að útskýra nákvæmlega hvað fór fram þeirra á milli.
„Því miður býr fjórði dómarinn ekki yfir heiðarleika til þess að segja hvað hann sagði við mig, hvernig hann sagði það og hvernig hann kom fram við mig, sem var augljóslega þess valdandi að ég brást svona við.“
„Ég vil fá að vita hvort það sé til hljóðupptaka af því sem hann sagði við mig. Ég vil ekki fara út í þá sálma að hann er frá Tórínó, að við eigum að spila næst við Juventus og að hann vilji ekki hafa mig á hliðarlínunni þar.
Ég vil ekki fara út í það. Ég vil ræða það að í fyrsta sinn á ferli mínum talaði dómari, og í þessu tilfelli fjórði dómari, við mig á óásættanlegan máta. Hann virðist hafa gleymt því sem hann sagði.
Piccinini sá mig koma inn í dómaraherbergið og segja við fjórða dómarann: „Ég vil að þú sért heiðarlegur og greinir frá því sem gerðist“. En hann virðist eiga í vandræðum með minni sitt,“ bætti afar ósáttur Mourinho við.