Sadio Mané, sóknarmaður Bayern München, kveðst sannfærður um að gömlu félagar hans í Liverpool muni keppa um titla á ný eftir erfitt yfirstandandi tímabil og hefur tröllatrú á knattspyrnustjóranum Jürgen Klopp.
„Liverpool mun snúa aftur. Ég er sannfærður um að þeir munu komast yfir þennan hjalla.
Þeir hafa glímt við fjölda meiðsla og þreytt erfið próf, en Jürgen Klopp er tvímælalaust rétti maðurinn. Hann mun leiða Liverpool aftur upp á við frá og með þessu tímabili.
Leikmennirnir elska hann,“ sagði Mané í samtali við þýska miðilinn Bild.
Eftir að hafa keppt um fjóra titla allt til enda á síðasta tímabili og unnið tvo þeirra hefur ekkert gengið á yfirstandandi tímabili þar sem liðið er úr leik í bikarkeppnunum á Englandi, útlitið dökkt í Meistaradeild Evrópu og níu stigum frá fjórða sæti í ensku úrvalsdeildinni, síðasta Meistaradeildarsætinu.