Markakóngur HM er látinn

Just Fontaine borinn af velli af félögum sínum eftir að …
Just Fontaine borinn af velli af félögum sínum eftir að hann skoraði fjögur mörk fyrir Frakka í sigri á Vestur-Þjóðverjum í leik um bronsverðlaunin á HM 1958 í Svíþjóð. AFP

Just Fontaine, maðurinn sem skoraði 13 mörk fyrir Frakka á heimsmeistaramóti karla í fótbolta árið 1958 og setti þar markamet sem aldrei hefur verið slegið, er látinn, 89 ára að aldri.

Fontaine fæddist í Marrakech í Marokkó 18. ágúst 1933 og hóf knattspyrnuferilinn þar með USM Casablanca þar sem hann skoraði 62 mörk í 48 leikjum en gekk til liðs við Nice í Frakklandi árið 1953 þar sem hann varð franskur meistari árið 1956. Hann var sigursælastur með liði Reims þar sem hann varð þrívegis franskur meistari, árin 1958, 1960 og 1962, og bikarmeistari árið 1958.

Þá var Fontaine í liði Reims sem tapaði úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða fyrir Real Madrid, 2:0, árið 1959.

Just Fontaine er látinn, 89 ára að aldri.
Just Fontaine er látinn, 89 ára að aldri. AFP/Franck Fife

Enginn leikið afrekið eftir

Fontaine skoraði 42 mörk í 69 leikjum fyrir Nice í frönsku deildinni á árunum 1953 til 1956 og síðan 122 mörk í 131 leik fyrir Reims.

Fontaine var valinn í franska landsliðið aðeins hálfu ári eftir að hann flutti til Frakklands og skoraði þrennu í fyrsta landsleiknum, gegn Lúxemborg.

Árið 1958 skráði hann sig endanlega á spjöld sögunnar með því að skora 13 mörk í sex leikjum Frakka á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð og það hefur enginn leikið eftir. Næst því hafa komist Sándor Kocsis sem skoraði 11 mörk fyrir Ungverja árið 1954 og Gerd Müller sem skoraði tíu mörk fyrir Vestur-Þjóðverja árið 1970.

Fontaine lék 21 landsleik fyrir Frakkland og skoraði í þeim 30 mörk.

Hann varð að leggja skóna á hilluna vegna meiðsla árið 1962, aðeins 29 ára gamall, en þjálfaði síðar bæði landslið Frakklands og Marokkó og félagslið eins og París SG og Toulouse.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert