Brynjar að skipta um lið í Noregi

Brynjar Ingi Bjarnason í baráttu við Álvaro Morata í landsleik …
Brynjar Ingi Bjarnason í baráttu við Álvaro Morata í landsleik gegn Spáni. AFP/Javier Soriano

Brynjar Ingi Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, er á leið til norska úrvalsdeildarfélagsins HamKam frá Vålerenga, sem leikur í sömu deild.

Frá þessu er greint í staðarblaðinu Hamar Arbeiderblad.

Eirik Nesset Hjelvik, íþróttafréttamaður hjá norsku sjónvarpsstöðinni TV 2, greinir einnig frá því á Twitter-aðgangi sínum að Brynjar Ingi sé mættur til Hamars og eigi aðeins eftir að gangast undir læknisskoðun, sem muni fara fram í dag.

Hinn 23 ára gamli Brynjar Ingi gekk til liðs við Vålerenga frá ítalska félaginu Lecce undir lok árs 2021 en átti ekki fast sæti í byrjunarliði Oslóar-liðsins á sínu eina tímabili á síðasta ári.

HamKam, sem hélt sér í norsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili, festir kaup á miðverðinum þar sem hann var samningsbundinn Vålerenga út tímabilið 2025.

Brynjar Ingi á að baki 14 A-landsleiki fyrir Íslands hönd, þar sem hann hefur skorað tvö mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert