Gagnrýna FIFA fyrir furðulega ráðningu

Adriana Lima var mætt á verðlaunaafhendingu hjá FIFA í vikunni.
Adriana Lima var mætt á verðlaunaafhendingu hjá FIFA í vikunni. AFP/Franck Fife

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, hefur fengið mikla gagnrýni fyrir þá ákvörðun að ráða brasilísku fyrirsætuna Adriana Lima sem sendiherra sambandsins fyrir HM kvenna.

Lima var á sínum tíma undirfatafyrirsæta fyrir fatarisann Victoria‘s Secret og þykir ráðningin taktlaus. Moya Dodd, fyrrverandi fyrirliði Ástralíu, er allt annað en sátt við ráðninguna, en HM fer fram í Ástralíu og Nýja-Sjálandi í sumar.

Dodd tjáði sig á Twitter í dag og benti á þá staðreynd að Lima borðaði ekki í níu daga fyrir tískusýningar. Lima hefur einnig látið hafa eftir sér að fóstureyðing væri glæpur, er hún ræddi við GQ-tímaritið árið 2006.   

Þá gangrýndi Dodd FIFA einnig fyrir að ráða ekki leikmenn í hlutverkið, í stað þess að fá fyrrverandi undirfatafyrirsætu, sem hefur enga tengingu við fótbolta. „Við viljum að fyrirmyndirnar okkar séu dæmdar fyrir tæklingarnar og mörkin á vellinum, ekki útlitið,“ skrifaði Dodd.

Gen Dohrmann, forseti samtaka kvennaíþrótta Ástralíu, tók í svipaðan streng. „Hvers vegna var Megan Rapinoe eða Sam Kerr ekki fengin í starfið? Karlamegin myndirðu sjá Cristiano Ronaldo í sama hlutverki. Af hverju þurfum við fyrirsætu til að sinna þessu?“ spurði hún í viðtali við BBC.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert