Hætta við breytingar á HM

Fyrirkomulaginu í riðlakeppni HM verður ekki breytt.
Fyrirkomulaginu í riðlakeppni HM verður ekki breytt. AFP/Kirill Kudryavtsev

Hætt hefur verið við fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulagi HM karla í fótbolta. HM í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada árið 2026 mun innihalda 48 lið og átti þeim að vera raðað í 16 þriggja liða riðla, í stað þess að hafa fjögur lið í hverjum riðli, eins og venjan er.

Eftir vel heppnaða og spennandi riðlakeppni á HM í Katar, hefur verið hætt við breytinguna og verða áfram fjögurra liða riðlar. Verða riðlarnir því tólf, í staðinn fyrir 16, og leikirnir 104 í staðinn fyrir 80.

Mun heimsmeistaramótið taka lengri tíma en áður, en í staðinn minnkar tíminn sem hvert lið fær til undirbúnings fyrir mótið. Verður því ekki endilega meira álag á leikmönnum, þrátt fyrir fleiri leiki.  

Samkvæmt BBC verður þetta formlega staðfest á þingi FIFA í Rúanda síðar í þessum mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert