HamKam staðfestir komu Brynjars

Brynjar Ingi Bjarnason í búningi HamKam í dag.
Brynjar Ingi Bjarnason í búningi HamKam í dag. Ljósmynd/HamKam

Norska knattspyrnufélagið HamKam frá Hamri hefur kynnt Brynjar Inga Bjarnason til leiks sem nýjan leikmann félagsins en hann skrifaði í dag undir þriggja ára samning við félagið.

Brynjar Ingi kemur til HamKam frá Vålerenga en bæði félögin leika í norsku úrvalsdeildinni. Brynjar lék eitt  tímabil með Vålerenga en var áður í röðum Lecce á Ítalíu í rúmt hálft ár eftir að hafa verið keyptur þangað frá KA.

Á heimasíðu HamKam segir að Brynjar komi alkominn til félagsins á sunnudaginn og hefji æfingar með liðinu á mánudag. Keppni í norsku úrvalsdeildinni hefst 10. apríl.

Brynjar er 23 ára gamall varnarmaður og á að baki 14 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. 

Jacob Michelsen þjálfari HamKam lýsir yfir mikilli ánægju með komu Brynjars á heimasíðu félagsins.

„Við erum verulega ánægðir með að okkur skyldi takast að fá Brynjar til HamKam og erum vissir um að hann verður okkur mikill happafengur. Hann er nútíma-miðvörður, hávaxinn, fljótur og með góða hæfileika með boltann sem munu passa vel við okkar leikstíl," segir Michelsen.

Brynjar er þriðji Íslendingurinn sem leikur með HamKam en Heiðar Geir Júlíusson lék með liðinu árið 2014 og Orri Sigurður Ómarsson árið 2018 en í bæði skiptin var liðið í norsku B-deildinni.

HamKam, eða Hamarkameratene eins og félagið heitir fullu nafni, komst upp í úrvalsdeildina eftir þrettán ára fjarveru haustið 2021 og hafnaði í þrettánda sæti af sextán liðum í deildinni á síðasta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert