Eins og greint var frá í gær er franska knattspyrnugoðsögnin Just Fontaine fallin frá. Svo virðist sem met hans frá HM 1958, þar sem Fontaine skoraði 13 mörk í aðeins sex leikjum, verði seint ef nokkurn tímann slegið.
Á þessari öld hafa margir af ótrúlegustu markaskorurum knattspyrnusögunnar leikið listir sínar. Cristiano Ronaldo og Lionel Messi hafa öðrum fremur sett ný viðmið í þeim efnum.
Þrátt fyrir það hefur Ronaldo mest skorað fjögur mörk á einu heimsmeistaramóti fyrir Portúgal, á HM 2018, og Messi mest skorað sjö, sem hann gerði á HM 2022 er Argentína varð heimsmeistari.
Ef þessir lygilegu markaskorarar komast ekki nær meti Fontaine en þetta, hver á þá að eiga möguleika á því að slá það í framtíðinni?
Augljósu svörin eru Kylian Mbappé, sem var markahæstur á HM 2022 með átta mörk fyrir silfurlið Frakklands, og Norðmaðurinn Erling Haaland.
Bakvörð Gunnars má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.