Jón Dagur Þorsteinsson átti magnaðan leik fyrir OH Leuven er liðið vann 4:2-heimasigur á Waregem í belgísku A-deildinni í fótbolta í kvöld.
Jón Dagur skoraði annað og fjórða mark Leuven og lagði upp þriðja markið. Hann kom liðinu í 2:0 á 41.mínútu, lagði upp markið sem kom liðinu í 3:0 á 45. mínútu og kom sínum mönnum í 4:1 með marki úr víti á 76. mínútu.
HK-ingurinn fór af velli fjórum mínútum eftir annað markið, við mikinn fögnuð stuðningsmanna liðsins, sannkölluð heiðursskipting.
Leuven er í 11. sæti deildarinnar með 36 stig eftir 28 leiki. Jón Dagur hefur skorað átta mörk fyrir Leuven á leiktíðinni og er næstmarkahæsti leikmaður liðsins.