Sveindís lagði upp mark í fyrsta tapleiknum

Sveindís Jane Jónsdóttir á æfingu með íslenska landsliðinu.
Sveindís Jane Jónsdóttir á æfingu með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir lagði upp mark Wolfsburg þegar liðið tapaði 1:2 fyrir Hoffenheim í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu kvenna í dag.

Markið lagði hún upp strax á fyrstu mínútu leiksins fyrir Jule Brand.

Skömmu fyrir leikhlé varð Felicitas Rauch fyrir því óláni að skora sjálfsmark og staðan því 1:1 í leikhléi.

Á 70. mínútu skoraði Nicole Billa sigurmark Hoffenheim og fyrsti tapleikur Wolfsburg í deildinni á tímabilinu því staðreynd.

Sveindís Jane lék fyrstu 77 mínúturnar fyrir Wolfsburg.

Fyrir leikinn var Wolfsburg búið að vinna alla 12 leiki sína í deildinni og er áfram á toppi deildarinnar með 36 stig.

Íslendingalið Bayern München er í öðru sæti og getur með sigri á útivelli gegn Werder Bremen á morgun minnkað forystu Wolfsburg niður í tvö stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert