Frakkinn Just Fontaine, goðsögn í sparkheimum, féll frá í vikunni, 89 ára að aldri. Hann er frægastur fyrir að hafa sett met sem stendur enn, þegar hann skoraði 13 mörk í einni og sömu lokakeppni heimsmeistaramótsins, 1958.
Sex leikir. 13 mörk. Nei, við erum ekki að tala um Norðurlandsmótið sáluga á gaddfreðinni mölinni á Sanavellinum, heldur sjálft heimsmeistaramótið á þéttslegnu ilmandi grasi í Svíþjóð. Árið er 1958 og Just Fontaine, miðherji Frakka, reykspólar upp úr rásblokkunum strax í fyrsta leik riðilsins; setur þrennu á varnarlausa Paragvæja. Fylgir því eftir með tvennu gegn Júgóslövum, sem þá voru ennþá þjóð, og einu gegn Skotum, sem alltaf verða þjóð. Frakkar fljúga áfram í átta liða úrslit.
Þar bíða Norður-Írar. „Hm, jæja,“ hugsar Fontaine með sér. „Setjum tvö á þá.“ Eftir það lendir franska sveitin á hinn bóginn á vegg; steinliggur fyrir Brasilíu með táninginn Pelé í broddi fylkingar, 2:5. Fontaine horfir á í andakt meðan Svarta perlan gerir þrennu. Sjálfur lætur okkar maður sér nægja eitt mark.
Heimsbikarinn er að vonum úr augsýn en ballið hvergi nærri búið. Fontaine bíður með það besta þangað til síðast; gerir fernu í leiknum gegn Vestur-Þjóðverjum um þriðja sætið, sem Frakkar vinna 6:3. Eins gott að José Mourinho var ekki fæddur á þessum tíma; sá hefði aldeilis ekki haft húmor fyrir slíkum furðutölum. „Hvað, var enginn í vörn?“
13 mörk á einu og sama lokamóti HM. Hvaða rugl er það? Enda stendur metið enn, 65 árum síðar. Og mun ábyggilega gera lengi enn, ef ekki um aldur og ævi. Það kannski fellur þegar menn fá þá flugu í höfuðið að fjölga liðum í lokakeppninni úr 48 í 96 og leikjunum með. Ungverjinn Sándor Kocsis átti gamla metið, 11 mörk frá HM í Sviss 1954, en næst þeim síðan hefur Gerd „Þjóðarsleggja“ Müller höggvið en hann gerði tíu mörk á HM í Mexíkó 1970. Eins og fram hefur komið í vikunni sitja þeir í sama sæti á listanum yfir markahæstu menn á HM frá upphafi, Just Fontaine og Lionel Messi – nema hvað sá síðarnefndi þurfti að mæta á fimm mót til að skora sín mörk. Fontaine lét sér duga eitt mót.
Þrátt fyrir afrekið var Fontaine liðsmaður fram í fingurgóma. Það kom skýrt í ljós þegar Frakkar fengu víti á 27. mínútu í leiknum gegn Vestur-Þjóðverjum. Fontaine var þegar kominn með eitt mark í leiknum og hefði getað jafnað met Kocsis en nei, hann leyfði Raymond Kopa að taka vítið – sem hann skoraði úr.
„Sé markamet mitt á HM 1958 greypt í stein þá er það liðsfélögum mínum að þakka,“ tjáði hann franska blaðinu Le Monde árið 2010.
En nú er hann allur, þessi goðsögn í sparkheimum og einkum og sér í lagi HM-sögunni, á nítugasta aldursári. Pelé hefur vísast tekið á móti honum fyrir handan og þeir félagar borið saman mörk sín.
Fontaine fæddist í Marokkó árið 1933 og sleit sínum fyrstu takkaskóm í Kasablanka, hjá áhugamannaliði sem heitir því dularfulla nafni USM. Þaðan lá leiðin til Nice í Frakklandi 1953, þar sem hann skoraði 51 mark í 84 leikjum. Frægastur er Fontaine þó fyrir dvöl sína hjá Reims, þar sem hann gerði 145 mörk í aðeins 152 leikjum frá 1956-62.
Hann varð fjórum sinnum franskur meistari, einu sinni með Nice og þrisvar með Reims, auk þess að vinna bikarinn í tvígang, einu sinni með hvoru liði. Þá lék Reims til úrslita um Evrópubikarinn 1959 en laut í lægra haldi fyrir Real Madrid. Fontaine var að sjálfsögðu markakóngur mótsins þann vetur, með tíu mörk.
Sá hefur ábyggilega yljað sér á ævikvöldinu við gott gengi sinna manna í Reims á liðnum mánuðum, undir stjórn Wills Stills, vinar Sunnudagsblaðsins.
Ferill Fontaines með franska landsliðinu var með afbrigðum glæsilegur en hann skoraði 30 mörk í aðeins 21 leik frá 1953 til 1960.
Erfið meiðsli styttu feril Fontaines í annan endann en hann tvíbraut á sér vinstri fótinn í leik 1960. Hann náði aðeins að leika 14 leiki tvö síðustu tímabilin hjá Reims og þurfti að leggja skóna á hilluna rétt fyrir 29 ára afmælið, sumarið 1962.
Nánar er fjallað um Just Fontaine í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.