Belginn Eden Hazard hefur ekki átt sjö dagana sæla síðan hann var keyptur til spænska stórliðsins Real Madrid frá enska liðinu Chelsea fyrir 100 milljónir evra árið 2019.
Hazard var einn allra besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í mörg ár áður en hann fór til Real en síðan þá hefur ekkert gengið. Meiðsli hafa sett stórt strik í reikninginn og hann hefur aldrei náð sér á strik á Spáni. Hann hefur einungis leikið 51 deildarleik á þessum tæpu fjórum árum og skorað í þeim fjögur mörk.
Talið er líklegt að þessi 32 ára vængmaður muni yfirgefa Real í sumar en samningur hans rennur út sumarið 2024.