Allt annað líf hjá Messi

Lionel Messi.
Lionel Messi. AFP/Franck Fife

Framtíð argentínska knattspyrnumannsins Lionels Messis er í mikilli óvissu þessa dagana en samningur hans við franska stórliðið París SG rennur út í sumar.

Messi, sem er 35 ára gamall, gekk til liðs við franska félagið frá Barcelona sumarið 2021 en hann hefur meðal annars verið orðaður við endurkomu til Spánar að undanförnu.

Þá hefur hann einnig verið sterklega orðaður við Inter Miami í bandarísku MLS-deildinni en forráðamenn París SG hafa áður gefið það út að þeir vilji framlengja við leikmanninn.

Fyrsta árið erfitt

„Mér gekk erfiðlega á mínu fyrsta ári í París og ég átti í erfiðleikum með að aðlagast lífinu í Frakklandi,“ sagði Messi í samtali við AS á Spáni.

„Það hefur hins vegar verið allt annað upp á teningnum hjá mér í ár og ég hóf tímabilið af miklum krafti.

Mér líður mjög vel hjá félaginu, í borginni og þetta er allt annað líf núna en á mínu fyrsta tímabili í Frakklandi,“ bætti Messi við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert