Enska liðið Chelsea er komið í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu eftir sigur á þýska liðinu Borussia Dortmund, 2:0, á Stamford Bridge í Lundúnum. Fyrri leik liðanna lauk með sigri Dortmund, 1:0, og vinnur Chelsea því 2:1 samanlagt.
Fyrri hálfleikurinn var mikil skemmtun. Heimamenn byrjuðu af miklum krafti og voru betri fyrstu tíu mínútur leiksins. Þá komust gestirnir betur inn í leikinn, náðu upp betra spili og stjórnuðu leiknum næsta korterið eða svo. Eftir það voru færin öll heimamanna og engin smá færi. Kai Havertz átti skot í innanverða stöngina eftir tæpan hálftíma og svo fengu Kalidou Koulibalu og Joao Felix báðir algjör dauðafæri í sömu sókninni á 40. mínútu.
Heimamenn náðu þó loks að brjóta ísinn í blálok fyrri hálfleiks þegar Raheem Sterling fékk fyrirgjöf frá Ben Chilwell, hitti boltann reyndar ekki í fyrstu tilraun en þrumaði honum í þaknetið í annarri tilraun úr teignum.
Á fjórðu mínútu seinni hálfleiks fengu heimamenn svo vítaspyrnu. Chilwell átti þá fyrirgjöf frá vinstri sem fór klárlega í höndina á Marius Wolf, hægri bakverði Dortmund. Danny Makkelie, dómari leiksins, dæmdi ekkert en eftir að hafa verið sendur í VAR-skjáinn komst hann að þeirri niðurstöðu að þetta væri vítaspyrna. Kai Havertz fór á punktinn, setti boltann í stöngina en Salih Özcan, sem hreinsaði frákastinu í burtu, var lagður of snemma af stað inn í teiginn og því þurfti að endurtaka spyrnuna. Þá gerði Havertz engin mistök, lagði boltann í sama horn á meðan Alexander Meyer kastaði sér í hitt.
Eftir markið spilaði Chelsea-liðið af skynsemi. Liðið lág til baka, varðist vel og beitti skyndisóknum sem voru nær því að skila marki en sóknaraðgerðir gestanna, ef frá er talið algjört dauðafæri sem Jude Bellingham fékk nánast strax eftir mark Havertz. Það fór svo að lokum að Dortmund ógnaði lítið sem ekkert það sem eftir lifði leiks og tveggja marka sigur Chelsea var því staðreynd.
Þrátt fyrir dapurt gengi heima fyrir síðustu mánuði verður Chelsea í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslit keppninnar en Dortmund er úr leik.