Forseti Barcelona segist þurfa minnst þrjá leikmenn í sumar

Joan Laporta og Sergio Busquets.
Joan Laporta og Sergio Busquets. AFP/Josep Lago

Joan Laporta, forseti spænska knattspyrnufélagsins Barcelona, segir að félagið þurfi að kaupa að minnsta kosti þrjá leikmenn í sumar.

Barcelona hefur verið í miklum fjárhagsvandræðum undanfarin ár en talað hefur verið um að launastrúktúrinn sé í molum. Þrátt fyrir það hefur félagið verið duglegt á markaðnum og tekið inn fjölda nýrra leikmanna.

„Við verðum að ná í einn hægri bakvörð, einn miðvörð og klárlega framherja. Þá munum við líklega þurfa að selja einhverja leikmenn. Við getum ekki útilokað að við seljum sóknarþenkjandi leikmann. Þegar Memphis Depay var seldur hefðum við viljað bæta við okkur sóknarmanni en það var fjárhagslega erfitt.

Við verðum að framlengja við Xavi. Hann á skilið að fá langtímasamning. Hann segist vilja vinna deildina áður en hann framlengir en ég er byrjaður að hugsa um þessi mál.

Við munum einnig bjóða Sergio Busquets nýjan samning. Xavi vill halda honum í ár til viðbótar svo við munum bjóða honum samning til ársins 2024.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert