Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Christophe Dugarry segir það mikið lán fyrir franska stórliðið París SG að brasilíski sóknarmaðurinn Neymar verði frá út keppnistímabilið vegna meiðsla.
Neymar, sem er 31 árs gamall, meiddist á ökkla gegn Lille í frönsku 1. deildinni þann 19. febrúar og þarf að gangast undir aðgerð vegna meiðslanna.
Sóknarmaðurinn hefur leikið 20 leiki í frönsku 1. deildinni á tímabilinu þar sem hann hefur skorað 13 mörk og lagt upp önnur 11.
„Það er lán fyrir PSG að Neymar sé meiddur,“ sagði Dugarry í samtali við franska miðilinn RMC.
„Það er miklu meira jafnvægi í liðinu þegar það spilar með fimm varnarmenn, þrjá á miðjunni og svo Messi og Mbappé fremsta.
Ég er orðinn mjög þreyttur á að horfa á Neymar. Líkamstjáningin hans á vellinum, hversu illa hann verst og ég vil ekki sjá hann á vellinum lengur,“ bætti Dugarry við.