Mikið af tilfinningum í gangi

Sáttur Graham Potter tekur í höndina á Wesley Fofana í …
Sáttur Graham Potter tekur í höndina á Wesley Fofana í leikslok í kvöld. AFP/Adrian Dennis

Graham Potter, stjóra Chelsea, var létt eftir sigur á Borussia Dortmund, 2:0, í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Dortmund vann fyrri leik liðanna 1:0 og fer Chelsea því áfram með samanlögðum sigri, 2:1.

„Ég veit ekki alveg hvernig mér líður. Það er mikið af tilfinningum í gangi. Það var smá stress í restina en strákarnir voru frábærir í kvöld. Ég er mjög ánægður fyrir þeirra hönd að ná í sigurinn. Þetta var virkilega sætt.“

Kai Havertz skoraði markið mikilvæga sem tryggði Chelsea sigurinn úr vítaspyrnu. Langan tíma tók að dæma vítaspyrnuna í gegnum VAR, en Havertz skoraði að lokum úr henni í annarri tilraun, eftir að hafa upphaflega skotið í stöng.

„Ég vissi að þeir væru með þetta hjá sér. Það var annað hvort hann eða Reece James sem var að fara að taka þessa spyrnu. Ég hafði fulla trú á Kai en gat samt ekki horft, svo ég var mjög feginn að heyra fögnuð stuðningsmannanna. Vítaspyrnur eru ekki fyrir mig svo ég virði alla sem treysta sér til að taka þær.“

Gengi Chelsea-liðsins undanfarna mánuði hefur verið mjög slæmt og var sigurinn í kvöld því sérlega dýrmætur.

„Það var frábær stemning í klefanum. Við höfum ekki verið að ná í úrslit undanfarið og þessi keppni skiptir okkur miklu máli. Við vildum komast í átta liða úrslitin og þessi úrslit gefa okkur mikið fyrir framhaldið.

Nú þurfum við að jafna okkur hratt og undirbúa okkur fyrir leik gegn Leicester á laugardaginn. Við erum búnir að halda hreinu tvo leiki í röð og það gerir mikið fyrir okkur. 

Ég vil bara hrósa leikmönnunum mínum. Þeir lögðu allt í þetta og mér fannst við eiga skilið að fara áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert