Stórsigur og Benfica í átta liða úrslitin

Goncalo Ramos fagnar eftir að hafa komið Benfica í 2:0 …
Goncalo Ramos fagnar eftir að hafa komið Benfica í 2:0 í kvöld. AFP/Patricia de Melo Moreira

Portúgalska liðið Benfica var ekki í neinum vandræðum með að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar karla í fótbolta í kvöld þegar liðið vann stórsigur á Club Brugge frá Belgíu, 5:1.

Benfica vann fyrri leikinn í Belgíu, 2:0, og var því í góðri stöðu, og Belgarnir áttu aldrei minnstu möguleika í Lissabon.

Staðan var þó markalaus fram á 38. mínútu en þá skoraði Rafa Silva fyrir Benfica eftir sendingu frá Goncalo Ramos. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks bætti Ramos við marki, 2:0.

Ramos var aftur á ferðinni með sitt annað mark á 57. mínútu, 3:0, og Joao Mario skoraði úr vítaspyrnu á 71. mínútu, 4:0.

Portúgalarnir létu kné fylgja kviði og varamaðurinn David Neres kom þeim í 5:0 með marki á 77. mínútu.

Belgarnir komust loks á blað á 87. mínútu þegar Bjorn Meijer minnkaði muninn í 5:1. Samanlagt vann því Benfica einvígið með yfirburðum, 7:1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert