Kai Havertz skoraði seinna mark enska liðsins Chelsea í sigri á þýska liðinu Dortmund, 2:0, í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld.
Raheem Sterling kom Chelsea yfir í leiknum áður en Havertz bætti við marki úr vítaspyrnu. Hann reyndar skaut í stöngina úr vítaspyrnunni en fékk að taka hana aftur þar sem Salih Özcan leikmaður Dortmund fór of snemma inn í teiginn. Havertz var ískaldur í seinni spyrnunni og renndi boltanum örugglega í sama horn.
„Ég veit ekki hvað ég var að hugsa í fyrri spyrnunni en sem betur fer fékk ég að taka hana aftur. Ég var örlítið stressaður en sem betur fer skoraði ég. Ég ákvað að bíða og sjá hvað markmaðurinn myndi gera og það virkaði.“
Chelsea hefur gengið mjög illa undanfarna mánuði og því var sigurinn sérlega kærkominn. Fyrir tveimur vikum síðan vann Dortmund fyrri leik liðanna 1:0.
„Síðustu tvær vikur hafa verið erfiðar, við höfum tapað mörgum leikjum. Sigurinn í kvöld var mjög mikilvægur. Þetta er mjög stór keppni og síðasti bikarinn sem við eigum möguleika á að vinna. Við sýndum mikinn karakter.“